top of page

Með bullandi unglingaveiki

Foreldrar sem eiga börn á táningsaldri velta oft fyrir sér hvernig best er að umgangast þennan aldur. Unglingurinn er latur, sefur mikið, fer gjarnan í fýlu og tekur reiðiköst og fékk þetta mynstur á einhverjum tímapunkti viðurnefnið unglingaveiki.

Það eru ekki bara íslenskir unglingar sem fá unglingaveiki. Það er þekkt um allan heim. Á norska vefnum www.forskning.no er spurt hvernig best sé fyrir foreldra að skilja unglinginn. Bestu börn í heimi geta breyst í latan, úrillan ungling sem hefur allt á hornum sér heima fyrir. Hvernig lærir maður að skilja unglinginn á heimilinu?

Það er mjög eðlilegt að unglingarnir breytist á þessum aldri þar sem þeir eru að ganga í gegnum miklar hormónabreytingar, segir Ditte Winther-Lindqvist, dósent í þróunarsálfræði við háskólann í Árósum. „Starfsemi heilans breytist, sérstaklega sá hluti sem stýrir hvatanum. Þess vegna getur unglingurinn stundum brugðist við einhverju á kröftugan og ýktan hátt.“ Undir þetta tekur Nina Tejs-Jørring, danskur sérfræðingur í geðsjúkdómum barna og unglinga. Hún hefur rannsakað áhrif fjölskyldumeðferðar ef börn eiga við geðræn vandamál að stríða. „Heilinn breytist hratt á þessum aldri og getur jafnvel breyst frá degi til dags. Unglingurinn ræður illa við hvernig hann bregst við hinum ýmsu málum. Foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um það. Til dæmis er mjög klassískt að foreldrar og unglingar rífist um svefntíma, hvenær eigi að ganga til náða og hversu mikinn svefn unglingurinn þarf. Þegar unglingurinn er í mjög slæmu skapi er það oft vegna þess að hann er þreyttur, svangur eða stressaður. Það væri því mjög góð hugmynd að sleppa öllum aðfinnslum á þeirri stundu.“

Litrík einkenni

Hafdís Þorsteinsdóttir sem er fjölskyldufræðingur segir að þegar börn nálgist 12 ára aldurinn verði líffræðilegar breytingar á þeim, þ.e. þegar kynþroskinn fer að láta á sér kræla. „Þetta ferli sem barnið er í inniheldur miklar hormónabreytingar bæði hjá drengjum og stúlkum og veldur mörgum foreldrum vandræðum. Barnið breytist í ungling með öllum þeim skemmtilegu og litríku einkennum sem því fylgja,“ segir hún.

Á þessum tíma verða foreldrar oft kjánalegir í augum unglingsins. Hafdís segir að unglingurinn sé í náttúrulegri baráttu við foreldra sína. „Barnið er í raun að byrja að aðskilja sig frá foreldrum sínum og skilgreina sig út frá eigin sjálfsmynd. Þetta verður til þess að pabbi og mamma eru oft „vitlausasta fólk í heimi“ á þessu tímabili. Þetta er eðlilegt og ef þessi þroski á sér ekki stað hefur eitthvað farið úrskeiðis og það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir seinni þroskastig einstaklingsins,“ segir hún. „Það er oft mjög erfitt fyrir foreldra að átta sig á því að barnið þeirra er að verða fullorðið. Sókrates skrifaði fyrir mörg hundruð árum um hversu börn þess tíma væru óhlýðin og óþolandi. Þetta hefur ekki breyst, fullorðnum finnst næsta kynslóð ekki nærri eins hlýðin og þau „minnir“ að þau hafi verið. Eitt erfiðasta verkefni í uppeldinu er að sleppa hendinni af barninu og leyfa því að fullorðnast og svífa á eigin vængjum."

Á leið úr hreiðrinu

Mörkin sem foreldrar setja börnum sínum í byrjun breytast eftir því sem barnið eldist og verður sjálfstæðara. Oft reynist þetta foreldrum erfitt og þeir þurfa að venja sig á og læra að treysta á dómgreind unglingsins. Það er nauðsynlegt að muna hvernig manni leið sjálfum á unglingsárum sínum. Unglingurinn er að undirbúa að fljúga úr hreiðrinu og finna sínar eigin leiðir. Gott er fyrir foreldra að minna sig á að þeir verði ekki alltaf til staðar og að unglingsárin eru eðlilegt þroskaferli og undirbúningur fyrir fullorðinsárin.

Unglingar þurfa að sofa mikið, það er mikilvægt fyrir heilbrigðan þroska líkamans og heila. Það er hins vegar verið mikilvægt að kenna þeim að sofa á réttum tíma. Nútíma unglingurinn á erfiðara með þetta en áður og það er ekki síst vegna þess hann eyðir talsverðum tíma í snjalltækjum sínum. Birtan sem af þeim stafar verður til þess að blekkja heilann og seinka framleiðslu hans á melatóníni sem sér um að gera okkur syfjuð. Það er því mikilvægt að reyna að draga úr allri skjánotkun alla vega tveimur tímum fyrir áætlaðan svefntíma,“ útskýrir Hafdís.

Ekki vera þroskaþjófur

Foreldrar eru oft pirraðir á leti unglingsins og flestir ráðgjafar eru sammála um að gott sé að virkja unglinginn og láta hann taka þátt í heimilisverkum. Gefa honum til dæmis föst verkefni á heimilinu. „Hlutverk foreldranna er að leiðbeina og setja unglingnum viðeigandi mörk svo hann komi betur undirbúinn út í lífið. Það kemur að því að þau þurfa að sjá um sig sjálf. Sýna honum umhyggju en ekki vera meðvirk, það getur kallað á að foreldrarnir verði svokallaðir „þroskaþjófar“. Það gerir unglingnum ekkert gott til lengri tíma litið. Ef maður er meðvirkur þýðir það að við erum að reyna að forðast að takast á við erfiðar en nauðsynlegar aðstæður, það þarf að kenna unglingnum að taka ábyrgð. Það getur stundum verið erfitt fyrir foreldra að greina á milli meðvirkni og umhyggju.“

Unglingurinn verður líka stundum reiður út í foreldrana en Hafdís segir að það sé ekkert hættulegt. „Það er meðfædd og eðlileg tilfinning. „Reiði er hins vegar ekki neitt meira en bara tilfinning og verður ekki hættuleg fyrr en við hleypum henni í virkni. Það ástand köllum við bræði og bræði getur verið hættuleg. Það er því mikilvægt að kenna börnum/unglingum að takast á við reiðina og finna henni eðlilegan og heilbrigðan farveg. Oft er gott að bregðast ekki við heldur vera bara til staðar. Mikilvægt er að reyna að koma til móts við unglinginn en á sama tíma að leiðbeina honum sem er hlutverk foreldranna. Bera virðingu fyrir honum og taka mark á tilfinningum hans og líðan. Að hlusta á hann er mikilvægt þar sem mikið er að gerast hjá unglingnum á þessu þroskastigi.

Samvera er mikilvæg

Ef foreldrar hafa ekki sinnt hlutverki sínu á viðeigandi hátt, til dæmis ef einhver vanræksla hefur átt sér stað í uppeldinu, getur það haft þær afleiðingar að unglingurinn ber ekki virðingu fyrir foreldrum sínum og er þá oft erfitt fyrir foreldrana að leiðbeina og setja mörk.

Ef grunnurinn og tengslin eru góð er allt miklu auðveldara. Eitt af hlutverkum foreldranna er að undirbúa unglinginn fyrir lífið. Góð tengsl og samvera er mikilvæg, þá leita þeir til foreldra sinna þegar á þarf að halda. Foreldrar þurfa að vera góð fyrirmynd og gefa öruggt skjól. Þess vegna verða foreldrar að huga að tengslum við börn sín strax frá byrjun,“ segir Hafdís.

Greinin Með bullandi unglingaveiki birtist í Fréttablaðinu þann 2. mars  2018.

✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥

 

Hafdís Þorsteinsdóttir fjölskyldufræðingur hefur víðtæka þekkingu á tengslamyndun og samskiptamynstrum í fjölskyldum. Hún heldur reglulega fyrirlestra um þau mál en vinnur einnig með ýmis viðfangsefni þessu tengt í hópavinnu. Hægt er að bóka einkaviðtöl og hafa samband við Hafdísi í gegnum tölvupóst á hafdis@leitumleida.is eða í síma: 857-7575.

bottom of page