Samskipti og aldraðir foreldrar
Hvernig verða samskipti hjá fjölskyldum þegar foreldrarnir eldast?
Er hægt að bæta rofin eða stirð samskipti?
Hvaða áhrif hefur það á samskiptin þegar hlutverkin snúast við?
Þegar foreldrarnir eldast getur skipt máli hvernig tengslin voru við börnin frá upphafi. Lítil börn læra að ganga og styðja sig við hina fullorðnu og sama gerist þegar við eldumst, eigum erfitt með gang og þurfum að styðja okkur við hina yngri. Þótt hinn aldraði þurfi stundum mikla aðstoð, eins og börnin í upphafi, má ekki gleyma að börnin læra allt frá byrjun en hinn aldraði á oft mikla lífsreynslu að baki.
Eitt af mikilvægustu atriðunum í samskiptum er að setja sjálfum sér og öðrum mörk. Þekkja hvenær við erum að vaða yfir aðra, stjórnast í lífi annarra eða leyfa öðrum að vaða yfir okkur. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir muninum á meðvirkni og umhyggju en það getur verið afar þunn lína þar á milli.
Togstreita við foreldra
Margvísleg vandamál geta komið upp þegar foreldrar eldast. Þótt góð samskipti séu almennt algengari en slæm þá koma oft upp vandamál þegar foreldrar eru komnir á efri ár. Það getur komið upp togstreita á milli aldraðra foreldra og barna þeirra þegar hlutverkaskipti verða en einnig geta komið upp vandamál á milli systkina og spurningar vakna. Hver gerir mest fyrir mömmu eða pabba? Erum við að ganga á okkur sjálf? Eða erum við með yfirgang? Er hægt að skipta verkefnum sanngjarnt á milli sín? Einu systkini finnst það gera mun meira á meðan hinum systkinunum finnst þau gera nóg en stundum er hugtakið nóg ekki það sama í huga allra. Gömul sár geta opnast og ný geta myndast.
Tilætlunarsemi foreldra
Aldraðir foreldrar geta stundum verið ýtnir eða tilætlunarsamir við aðstandendur sína og kemur jafnvel fyrir að hinn aldraði vilji enga þjónustu þótt hann bæði þurfi hana og eigi rétt á henni. Sumum finnst að börnin geti séð um þetta, “þeir eigi það inni”, en sumir vilja gera allt sjálfir þótt þeir hafi ekki burði til þess og aðstoðin lendir á börnunum. Þá getur mörgum einnig reynst afar erfitt að sætta sig við þessi breyttu hlutskipti og að þeir séu að missa sjálfstæði sitt.
Stundum tekur eldra fólk meira mark á fræðingum en sínum nánustu og getur þá reynst árangursríkt að leita til fagaðila með þau mál sem fjölskyldan er mögulega komin í strand með. Til eru dæmi þess að ættingjar eða umönnunaraðilar verði sjálfir veikir vegna álagsins sem getur fylgt því að sinna sjúkum eða öldruðum foreldrum og er afar mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir slíkt.
Þunglyndi eða einmanaleiki
Þunglyndi er þekkt vandamál og algeng greining hjá öldruðum en þegar fólk eldist getur margt gerst sem veldur vanlíðan. Miklar breytingar geta átt sér stað, m.a. ástvinamissir, heilsutap og að fólk er ekki lengur á vinnumarkaði og getur því fylgt þessu æviskeiði mikil sorg. Margir finna fyrir depurð og það að horfa á eftir maka, vinum og öðrum ástvinum eykur hættu á þunglyndi. Mikilvægt er að fólk geti rætt líðan sína en stundum þarf utanaðkomandi fagaðila til að finna leiðir að betri líðan. Fleiri samverustundir gætu skipt máli en þær þurfa að vera nærandi fyrir báða aðila. Ýmis þjónusta sem er í boði fyrir aldraða getur haft góð áhrif, sem og námskeið til að styrkja fólk til sjálfshjálpar og virkja það félagslega. Það getur verið nærandi og skemmtilegt að vera í samskiptum við fólk á sínu reki og finna tómstundir og afþreyingu við hæfi.
Þó fyrir því liggi engar vísindalegar sannanir þá er afar líklegt að eldra fólk sé gjarnan greint með þunglyndi eða kvíða þegar það er einfaldlega einmana.
Samlokukynslóðin
Það er mikilvægt fyrir aldraða að hafa stuðning en tímaskortur og vinnuálag er algengt í nútíma samfélagi og fullorðnu börnin hafa oft nóg með eigin fjölskyldu og börn. Þetta er stundum kallað samlokukynslóðin, þegar einhver er á milli sinnar eigin fjölskyldu annars vegar, þ.e. maka og barna, jafnvel barnabarna, og aldraðra foreldra sem þarf að sinna hins vegar. Uppkomnu börnin reyna að sinna báðum hlutverkunum vel og eru jafnvel í fullri vinnu líka. Við þessar aðstæður upphefst streita, mikið álag og skapast oft lítil þolinmæði í garð ættingja.
Öldruðu foreldrunum finnst samskiptin stundum of lítil á meðan afkomendum finnst þau vera mikil eða allavega nægileg. Blendnar tilfinningar koma þá upp hjá aðstandendum, jafnvel samviskubit eða sektarkennd. Hvernig tengslin voru áður getur þá haft áhrif á hvernig samskiptin þróast og getur þá reynst mikilvægt að gera upp fortíðardrauga ef einhverjir eru. Þó ekki sé alltaf unnt að fara í slíka vegferð með þeim ættingjum eða aðstandendum sem eiga í hlut, er vel hægt að vinna úr flæktum, erfiðum, gömlum sem og nýjum málum upp á eigin spýtur með réttum fagaðila.
✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥
Hafdís Þorsteinsdóttir fjölskyldufræðingur hefur víðtæka þekkingu á tengslamyndun og samskiptamynstrum í fjölskyldum. Hún heldur reglulega fyrirlestra um þau mál en vinnur einnig með ýmis viðfangsefni þessu tengt í hópavinnu. Hægt er að bóka einkaviðtöl og hafa samband við Hafdísi í gegnum tölvupóst á hafdis@leitumleida.is eða í síma: 857-7575.