top of page

Samskiptafærni
- mörk og markaleysi -

Á námskeiðinu er fjallað um birtingarmyndir samskipta og áhrif þeirra á sambönd okkar við samstarfsfólk og fjölskyldur, finna leiðir til að bæta líðan og virkni bæði í starfi og einkalífi.

 

Góð samskipti eru eitt af lykilatriðum að vellíðan. Til að efla samskiptafærni er meðal annars nauðsynlegt að læra að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk. Þetta getur virst flókið þar sem mörk geta verið óljós og erfitt að skilja. Markaleysi lýsir sér oft í stjórnsemi, undanlátsemi, að eiga erfitt með að segja nei eða tilhneiging til að þóknast öðrum úr hófi. Ef mörk eru heilbrigð geta þau verndað okkur gegn óæskilegri hegðun annarra í kringum okkur en einnig komið í veg fyrir að við særum aðra.

 

Einstaklingar sem vita ekki hvar mörk þeirra liggja óttast álit annarra eða höfnun, eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hvernig þeim sjálfum líður og telja sig oft vita betur hvernig öðrum líður. Þetta getur haft mikil áhrif á samskipti og samskiptafærni.

Algengar birtingarmyndir þess eru:

  • Samskiptaerfiðleikar

  • Kvíði fyrir ákveðnum aðstæðum

  • Þekkja illa tilfinningar sínar og líðan

  • Eiga erfitt með að taka ákvarðanir

  • Vera með of sterk eða jafnvel engin viðbrögð

  • Stjórnsemi og/eða undanlátssemi

 

Að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk getur hjálpað einstaklingum að styrkja sig í hinum ýmsu aðstæðum og verndað líkamlega og andlega heilsu. Einnig til að draga úr gremju, streitu, forðast kulnun og bæta tímastjórnun. Heilbrigð mörk hafa áhrif á líðan okkar og stuðla að góðum samskiptum og auka ánægju á vinnustaðnum og í einkalífi.

Námskeiðið er byggt á hugmyndafræði fjölskyldumeðferðar og lausnamiðaðri nálgun (Solution Focused Brief Therapy). Þar er lögð áhersla á að virkja og styrkja jákvæðar hugsanir og hegðun þar sem athyglinni er beint að gleymdum styrkleikum og finna leiðir til að endurreisa þá. 

Þar er m.a. unnið með að víkka þá rörsýn sem fólk á til að festast í þegar það skilgreinir vandamál sín og dómhörku í sinn garð. Slíkt hugarástand takmarkar möguleika fólks til að sjá mögulegar og fjölbreyttar lausnir. 

 

Á námskeiðinu fá þátttakendur tækifæri til að færa hugarfar sitt frá festu fortíðar og vandamála yfir í lausnir og úrræði með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi.

Markmiðið er að fólk finni leiðir til að leysa vanda með markvissum og raunhæfum hætti og auki færni í samskiptum og að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk.

Námskeiðið er þrjú skipti, 2,5 tímar í senn og er hámarksfjöldi 10 manns. Það er samsett af fyrirlestrum og verkefnum og veitt rými fyrir virkar umræður. 

Fyrir hverja er námskeiðið:

Námskeiðið er fyrir alla sem vilja byggja upp og styrkja heilbrigð samskipti, læra að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk. Efla sjálfsmat og samskiptafærni bæði á vinnustað og í einkalífi.

 

Fyrirlesari: Hafdís Þorsteinsdóttir fjölskyldufræðingur

Staðsetning: Síðumúli 33, 108 Rvk

Næsta námskeið:  28. maí + 4. júní + 11. júní (þrír þriðjudagar)

Tími: kl. 13.00-15.30 (samtals 7,5 klst)

Verð: 45.000.-    

 

Nánari upplýsingar og skráning: 

leitumleida@leitumleida.is eða í síma 857-7575

Hægt er að sækja um styrk fyrir námskeiðsgjöldum og viðtölum hjá flestum stéttarfélögum.​​

bottom of page