top of page

Meðvirkni á vinnustöðum getur haft mikil áhrif á samstarf, líðan og vinnuafköst. Ástandið getur valdið streitu, kvíða og vinnuþreytu og geta birtingarmyndir meðvirkni verið margskonar, allt frá mikilli stjórnsemi yfir í mikla undanlátsemi og nánast allt þar á milli.

 

Sá stjórnsami tekur gjarnan ábyrgð af starfsmönnum og telur sig vera að aðstoða samstarfsmenn sína eða bjarga þeim frá að gera mistök með því að gera allt sjálfur. Á sinn hátt getur þessi einstaklingur virst mjög hæfur og afkastamikill en er oft óvæginn, stundum hrokafullur og á það til að ofmeta sig. Það getur haft þær afleiðingar að þeir taka minni ábyrgð á eigin hegðun og starfsskyldum.

Hinn undanlátssami, sem er yfirleitt óöruggur, er uppfullur af streitu og kvíða og óttast að gera mistök. Þetta getur verið mjög truflandi fyrir aðra starfsmenn, m.a. vegna þess að hinn undanlátssami getur orðið uppáþrengjandi og þurft mikla aðstoð frá öðrum, jafnvel mun meiri en hann raunverulega þarf. Slík hegðun getur leitt til þess að aðrir forðast nærveru viðkomandi. Undanlátssamir einstaklingar geta orðið háðir viðurkenningu og samþykki annarra og leitast við að þóknast öðrum, sem getur haft mikil áhrif á líðan þeirra í starfi og vinnuafköst.

Starfmenn sem eru meðvirkir eiga oft erfitt með að segja nei við verkefnum og setja sjálfum sér og öðrum gjarnan lítil sem engin mörk. Þeir vinna oft langt yfir skynsamleg mörk og vonast eftir viðurkenningu og þakklæti fyrir dugnað sinn og fórnfýsi. Ef það gerist ekki geta þeir farið í fórnarlambshlutverk sem birtist t.d. í því að fara í fýlu eða verða uppstökkir sem hefur óhjákvæmilega áhrif á samstarfsfólk og starfsumhverfið.

Meðvirkir starfsmenn eru jafnan með lágt sjálfsmat og eiga til að óttast höfnun. Þannig geta jafnvel minnstu mistök komið þeim í uppnám, sem getur dregið úr getu þeirra til að taka áhættu og eykur frestunaráráttu. Þeir eiga oft erfitt með að deila verkefnum með öðrum og telja sér jafnvel trú um að þeir eigi að geta klárað verkefnin einir og óstuddir. Þeir eru hræddir um að öðrum líki illa við þá ef þeir klári ekki verkefnin, jafnvel þótt verkefnin séu tveggja manna verk. Með tímanum upplifa þeir sig útbrunna, með kvíðahnút og yfirstressaðir.

Það er ekki alltaf auðvelt að takast á við mjög meðvirka einstaklinga en mikilvægt er að setja þeim heilbrigð, skýr og viðeigandi mörk. Einnig þarf að aftengjast meðvirkri hegðun samstarfsfélaga. Ef ekki er tekið á meðvirkri hegðun á vinnustöðum þá hefur það komið fyrir að góðir starfsmenn segja upp störfum sínum til að koma sér úr skaðlegum og erfiðum kringumstæðum.

Hvaðan kemur meðvirknin?

Einstaklingar eru ekki allir eins, hafa mismunandi reynslu, komið úr ólíku uppeldi, þróað með sér margvíslegar lífsskoðanir, orðið mögulega fyrir áföllum og hafa mismunandi getu til að vinna úr tilfinningum. Við fæðumst ekki meðvirk en á aðal mótunarárum okkar lærum við meðvirka hegðun. Hún getur verið mismikil allt eftir uppeldisaðstæðum okkar og er talið að starfsmenn með örugg tengsl og uppeldisaðstæður frá bernsku beri almennt frekar traust til annarra. Einnig eru þeir taldir líklegri til að deila upplýsingum til annarra, hafa betri hæfni til að vinna sjálfstætt, til samstarfs, sýna öðrum stuðning og mynda margskonar tengsl við mismunandi einstaklinga eða hópa.

Meðvirk hegðun getur verið flókin og margvísleg og eru ofangreind atriði ekki tæmandi listi yfir einkenni meðvirkni á vinnustað, hvorki yfir starfsmenn sem glíma við meðvirkni né þá sem eru að starfa með þeim. Rétt eins og við veljum ekki fjölskyldumeðlimi okkar, þá fáum við ekki alltaf að velja yfirmenn eða samstarfsmenn.

Fræðsla

Við viljum heilbrigt og gefandi samstarf á vinnustað þar sem ríkir gagnkvæm virðing. Þegar við lærum að bera kennsl á og skilja hegðunarmynstur eins og meðvirkni, getum við unnið að því að breyta mynstrinu. Ef einstaklingur er að glíma við eigin meðvirkni á vinnustað er mikilvægt að horfast í augu við eigin hegðun. Til þess að leysa upp vanvirk mynstur á vinnustað þarf maður fyrst og fremst að átta sig á hvað meðvirk hegðun er. Það er hægara sagt en gert, en sjálfsskoðun og hugrekki til að takast á við þessa hegðun er lykillinn að því að koma af stað breytingum.

Fræðsla fyrir starfsmenn til að fá þekkingu á einkennum og afleiðingum meðvirkni er góð byrjun. Þegar starfsmenn þekkja einkenni og afleiðingar meðvirkni á vinnustað er hægt að finna leiðir til að breyta og bæta. Eins og hefur komið fram hefur meðvirkni ekki aðeins áhrif á þann meðvirka, heldur getur einnig á þá sem eru í kringum hann. Einnig reynist oft nauðsynlegt að fara í einstaklings-eða hópmeðferð eða fá handleiðslu á vinnustaðinn hjá fagmanni sem hefur þekkingu á meðvirkni.

Meðvirkni á vinnustað

bottom of page