Aldrei aftur meðvirkni - aldrei aftur hvað?

 

Skilgreiningar á meðvirkni

Flestir fræðimenn eru sammála um að meðvirkni sé "óheilbrigt tengslamynstur einstaklings við aðra, ásamt nær öfgakenndri einblýni á aðra einstaklinga, en gleyma sjálfum sér, afleiðingin verður vanhæfni til að tjá tilfinningar sínar og persónulega merkingu sem leiðir af samskiptum við aðra". Þar sem meðvirkir einstaklingar eru uppteknir af ummönnun og tilfinningum annarra, gleyma þeir oft að hugsa um sjálfan sig sem leiðir til truflunar á þroska þeirra eigin sjálfsmyndar. Til þess að bjarga þessum "bjargvættum" verður að bæta skilning þeirra á meðvirkni og er það t.d. hægt með því að skoða uppruna þeirra og mögulegar ástæður meðvirkninnar og finna þannig leiðir til að breyta óheilbrigðu mynstri.

 

Algengustu skilgreiningar hugtaksins er að meðvirkur einstaklingur sé óþarflega mikið háður samþykki annarra og hefur það áhrif á þeirra eigin sjálfsmynd og hegðun. Þá er tilhneiging þeirra sem eru meðvirkir að setja þarfir annarra á undan eigin þörfum og að taka ábyrgð á hegðun annars einstaklinga til að "bjarga" þeim eða lagfæra tjón sem er af völdum ábyrgðarlausar hegðunar annarra.  Í grófum dráttum snýst meðvirkni um einstakling sem er óhóflega tilfinningalega háður öðrum einstaklingi eða sá sem reynir að stjórna hegðun annarra í kringum sig, þarf samþykki annarra vegna lítils sjálfsmats og sjálfstrausts og á það til að gera persónulegar fórnir í lífi sínu til þess að hafa áhrif á líðan annarra. Þeir sem eru meðvirkir hugsa oft sem svo að það sé ekki í lagi fyrir þá að finna til, eiga vandamál eða hafa gaman. Þeir trúa því ekki að það sé hægt að elska þá, telja að þeir séu ekki nógu góðir og beri ábyrgð á því ef aðrir hegði sér, eða líði, illa. Ef hugsanir á borð við þessar ásækja einstaklinga er ekki ósennilegt að um meðvirkni sé að ræða.

Pia Mellody, sem hefur verið ráðgjafi hjá einni virtustu meðferðarstöð Bandaríkjanna, segir að meðvirkni verði alltaf til í æsku og sé sjúkleiki sem verði til vegna vanvirkra aðstæðna barns í æsku. Meðvirkir einstaklingar séu óþroskaðir og barnalegir og ýmis einkenni vegna þessa munu hindra þá í lífinu. Grunnskilaboð meðvirkninnar felast í því að ef þú þekkir ekki sjálfan þig, ert ekki í tengslum við tilfinningar þínar, þarfir og þrár, getir þú ekki verið þú sjálfur eða sagt öðrum hver þú ert nema að takmörkuðu leyti. Í fræðum Piu Mellody er fjallað um grunneinkennin sem meðvirkir eiga í erfiðleikum með en þau eru m.a. vandi við að upplifa viðeigandi þætti sjálfsálits, setja heilbrigð mörk, samþykkja eigin ófullkomleika, tjá eigin raunveruleika og erfiðleikar með að hugsa um þarfir sínar og langanir. Hún segir að meðvirkir einstaklingar eigi í vandræðum með að upplifa og tjá eigin raunveruleika án þess að tjáningin fari út í öfgar í aðra hvora áttina.

John Bradshaw, þekktur fíkniefnasérfræðingur, segir að börn þurfi öryggi og fyrirmyndir sem tjái tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt til þess að geta skilið sín innri merki. Það þarf að hjálpa börnum að greina á milli hugsana og tilfinninga og ef andrúmsloft fjölskyldunnar er uppfullt af ofbeldi, hvort sem er andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu, verður barnið stöðugt að beina athyglinni að umhverfi sínu. Missir barnið þá eiginleikann til að skapa sjálfsvirðingu innan frá og reynir að hljóta lífsfyllingu utan frá. Þetta er kallað meðvirknieinkenni hins særða barns.

 

Meðvirk hegðun sýnir að þörfum bernskunnar hefur ekki verið sinnt og afleiðingin verður sú að viðkomandi veit ekki hver hann er.  Náttúran hefur gefið okkur þann eiginleika að geta búið tímabundið við álag og spennu en það verður óeðlilegt ef spennan verður viðvarandi. Manneskja sem býr við varanlegt álag og spennu vegna hegðunar annarra, missir tengslin við eigið sjálf, tilfinningar, þrár og þarfir.

Hverjir eru í hættu að „veikjast“ af meðvirkni

     Talsmenn hugtaksins meðvirkni segja að meðvirkni sé lærð hegðun, að einstaklingurinn fæðist ekki meðvirkur heldur komi einkennin oft vegna afleiðinga þess sem einstaklingar hafi orðið fyrir í æsku eða séu venjur sem lærist frá einni kynslóð til þeirrar næstu. Fjallað hefur verið um að félagslegar aðstæður geti haft áhrif og sýnt hefur verið fram á að uppeldisaðstæður tengjast þróun meðvirkni.

Má nefna dæmi eins og ef einstaklingi langar í skóla en fær þau skilaboð frá sínum nánustu að hann sé of heimskur til þess að fara að stunda nám og hann megi þakka fyrir að ef hann hittir einhvern heimskan sem vilji búa með honum. Gæti þá gerst að einstaklingurinn myndi ekki meta sig mikils og þróa þar af leiðandi með sér einkenni þess að vera meðvirkur og sækja stöðugt í viðurkenningu annarra á óuppbyggilegan hátt. 

Þá geta stöðugar áhyggjur af nákomnum á uppvaxtarárum, t.d. foreldri, þróast í mjög meðvirka hegðun sem getur haft mikil áhrif á félagslegan þroska barna. 

Hvort sem meðvirkni er skilgreind sem sjúkdómur eða ekki, þurfa meðvirkir einstaklingar meðferð við ýmsum einkennum, þar sem þeir greinast yfirleitt með ýmis sálræn og félagsleg vandamál. Miðað við þær skilgreiningar sem hafa komið fram er sjálfsmynd meðvirkra einstaklinga lítil og tengslamyndanir slæmar en hvort tveggja er hægt að endurbyggja og rækta með aðstoð réttra aðila.