top of page

Meðvirkni

Upphaflega var meðvirkni einungis tengt við einstaklinga og fjölskyldur sem áttu ættingja, maka eða vini sem voru með vandamál varðandi áfengis- eða fíkniefnaneyslu.  Þegar betur var skoðað kom í ljós að  meðvirkni er mun víðtækari. Hún getur einnig þróast hjá fólki sem eiga fjölskyldumeðlimi sem þjást af langvinnum andlegum eða líkamlegum veikindum. Þá geta stöðugar áhyggjur af nákomnum á uppvaxtarárum, t.d. foreldri, þróast í mjög meðvirka hegðun sem getur haft mikil áhrif á félagslegan þroska barna. Meðvirkni er ekki skilgreind sem sjúkdómur heldur meira lærð hegðun sem hefur þróast við erfiðar eða flóknar kringumstæður, byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

 

Einkenni meðvirkni

Meðvirkur einstaklingur metur skoðanir og tilfinningar annarra meira en sínar eigin og er hræddur við að láta álit sitt í ljós eða vera ósammála einhverju. Á erfitt með að gera sér grein fyrir hvernig honum líður, veit betur hvernig öðrum líður. Hann hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við eins og að:

   

  • Setja þarfir annarra á undan eigin þörfum

  • Taka ábyrgð á hegðun annarra einstaklinga 

  • Vera óþarflega mikið háður samþykki annarra

  • Gera persónulegar fórnir í lífi sínu til þess að hafa áhrif á líðan annarra

  • Eiga erfitt með að setja öðrum heilbrigð mörk

  • Breyta gildum sínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annarra

  • Setja áhugamál sín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja

 

Meðvirkni lýsir sér hér að ofan meira sem undanlátsemi en meðvirkni lýsir sér líka í stjórnsemi hjá einstaklingum eins og að:

  • Finnast annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft

  • Reyna að  sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.

  • Fyllast gremju þegar aðrir leyfa þeim ekki að hjálpa sér

  • Gefa öðrum ráð og leiðbeiningar óspurðir

Þegar einstaklingum tekst ekki að stjórna eigin lífi þá fara þeir oft þá leið að stjórnast í lífi annarra í staðinn fyrir að horfa inná við á sína eigin hegðun

Fjölskyldan og meðvirkni

Talið er að meðvirkni byrji alltaf í æsku. Börn fæðast ekki meðvirk en uppeldisaðstæður geta tengst þróun meðvirkni. Eitt af því sem getur haft áhrif á að einstaklingur þróar með sér meðvirkni er  t.d. vanvirkt fjölskyldumynstur.  Eins og þegar fjölskyldan viðurkennir ekki að vandamál séu til staðar, ræðir ekki um vandamál eða vill ekki horfast í augu við þau. Í þannig aðstæðum læra fjölskyldumeðlimir að bæla niður tilfinningar og gera lítið úr eigin líðan og þörfum. Þeir þróa hegðun sem hjálpar þeim að afneita, hunsa eða forðast erfiðar tilfinningar. Þetta hefur svo áhrif á sjálfsmynd og tilfinningalegum þroska einstaklinga, þeir læra ákveðna hegðun miðað við þær aðstæður að vera alin upp við veikt og vanvirkt fjölskyldumynstur.

Vinnustaðurinn og meðvirkni

Meðvirkir starfsmenn taka oft meiri ábyrgð en þeim ber, þar sem þeir láta eigin líðan og þarfir sitja á hakanum. Þeir forðast ágreining eða eru alltaf sammála þótt þeir vilji breytingar, þar sem þeir eru hræddir við viðbrögð annarra. Setja sjálfum sér og öðrum ekki skýr mörk. Koma ekki með gagnrýni á aðra þar sem þeir vilja ekki koma þeim í vandræði, þótt hegðun annarra hafi mikil áhrif á líðan þeirra á vinnustaðnum. Meðvirkir starfsmenn geta líka verið mjög stjórnsamir alltaf verið að gagnrýna störf annarra og stjórnast í því sem þeir eru að gera. Auðveldara að horfa á störf annarra og láta þá fá samviskubit, en að horfa inná við og taka ábyrgð á sínu starfi.

Meðvirkt ástand á vinnustöðum veldur því að fólk fer að tipla á tánum gagnvart erfiðum samstarfsfélögum. Samskiptin og starfsandinn á vinnustaðnum verða erfið.  Ef ekkert er að gert er hætta á veikindum hjá starfsfólki eins og kulnun. Einnig er hætta á að gott starfsfólk segir upp störfum til að koma sér úr aðstæðunum.

Afleiðingar meðvirkni

Afleiðingar meðvirkni, getur leitt til truflunar á þroska eigin sjálfsmyndar. Þetta hefur svo þau áhrif að einstaklingurinn á erfitt með að  upplifa viðeigandi sjálfsvirðingu/sjálfsmat. Sem hefur svo  áhrif á samskipti við aðra eins og í  tilfinningasamböndum, vináttusamböndum eða samskipti á vinnustöðum. Einnig á sá sem hefur  þróað með sér  meðvirkni oft í vandræðum með að upplifa og tjá sínar tilfinningar og líðan. Erfitt með að tjá sig af hófsemi gerir það annaðhvort með of miklum viðbrögðum eða engum viðbrögðum.

Náttúran hefur gefið okkur þann  eiginleika að geta búið tímabundið við álag og spennu en það verður óeðlilegt ef spennan verður viðvarandi. Manneskja sem býr við varanlegt álag og spennu vegna hegðunar annarra, missir tengslin við eigið sjálf, tilfinningar, þrár og þarfir. Þar sem meðvirkni getur leitt til mikillar samskipta örðugleika og lágs sjálfsmat leiðir það oft til mikillar vanlíðunar, sem birtist í depurð, kvíða og þunglyndis. Eins og áður hefur komið fram þá er meðvirkni ekki skilgreind sem sjúkdómur, en getur leitt til sjúkdóma, ef einstaklingar vinna ekki með meðvirkni sína.

Leiðir til bata

Til þess að vinna á meðvirkni þurfa einstaklingar að styrkja sjálfsvirðingu sína. Bæta skilning sinn á meðvirkni, skoða uppruna meðvirkni og finna leiðir til að breyta óheilbrigðu mynstri. Finna út hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt í samskiptum/samböndum fólks.

Þótt meðvirkni sé ekki skilgreind sem sjúkdómur, þurfa meðvirkir einstaklingar meðferð við ýmsum einkennum, þar sem þeir greinast oft með ýmis sálræn og félagsleg vandamál. Miðað við þær skilgreiningar sem hafa komið fram er meðal annars sjálfsmynd meðvirkra einstaklinga lítil og þeir eiga erfitt með að setja sér og öðrum heilbrigð mörk sem hefur áhrif á samskipti, en hvort tveggja er hægt að endurbyggja og rækta með aðstoð réttra aðila. Með því að vinna með sjálfan sig eykst sjálfsvirðingin, maður finnur og veit hvar maður vill hafa mörkin. Með þessu eykst lífsgæðin og samskipti batna. Þetta fæst með því að læra  og skilja helstu einkenni meðvirkni og hvað það er sem við þurfum að aflæra.

 

Ýmsar leiðir eru til bata frá meðvirkni en þar má nefna viðtöl hjá fagaðila sem hefur þekkingu á meðvirkni, námskeið fyrir meðvirka og hópavinna. Einnig eru til tólf spora samtök sem miða að meðvirkni. Allt sem þarf er hugrekki til að fara skoða imá við finna hver við erum og hver við viljum vera og hvert við viljum stefna.

bottom of page