top of page

Fjölskyldan í kjölfar áfalla

 

Þegar komið er á fullorðinsár getur það haft heilmikið að segja hvernig einstaklingur bregst við áföllum, hvort það eru áföll frá fyrri tíð sem aldrei hefur verið unnið úr eða eitthvað sem hefur gerst nýlega. Aukinn skilningur og þekking á áhrifum áfalla er mikilvægt og getur hjálpað okkur við að vinna úr þeim og auðveldað okkur að bæta samskipti jafnt innan fjölskyldunnar sem utan.

 

Áföll geta birst í ýmsum myndum og einskorðast ekki endilega við einn tiltekinn atburð. Skilnaður, ástvinamissir, atvinnumissir, gjaldþrot eða andlegt og líkamlegt ofbeldi eru meðal þekktari áfalla en einnig geta langvinn veikindi, slys, vanvirkar heimilisaðstæður eða rofin tengsl á uppvaxtarárum haft mikil áhrif á hegðun okkar og líðan. Þegar við verðum fyrir áfalli verða í raun til eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Viðbrögðin geta verið sterk, bæði tilfinningalega og líkamlega. Við aðlögumst engu að síður þeim aðstæðum sem okkur mæta. Það er eðlilegt að hafa sterk tilfinningaleg eða líkamleg viðbrögð í kjölfar óþægilegra atburða. Í flestum tilfellum minnka þessi viðbrögð með náttúrulegu bataferli líkamans en oft getur erfið reynsla haft veruleg og langvarandi áhrif á samskipti og virkni í fjölskyldum, við maka, vini eða samstarfsfélaga.

Hefur áhrif á alla

Til að fjölskyldan geti farið saman í gegnum þrengingar þurfa að vera ákveðin verkfæri sem hún býr yfir. Af og til missir einhver tímabundna getu til að blómstra en um leið gæti hinn sami fengið rörsýn sem hindrar hann í að sjá hvað hann hefur, hvað hann á, hvaða styrk hann býr yfir og hversu dýrmæt fjölskylda hans er. Rörsýnin hefur áhrif á alla aðra í fjölskyldunni. Ef einn eða fleira verða til að mynda fyrir áfalli/áföllum er jafnvægi fjölskyldunnar ógnað. Það hefur ekki aðeins áhrif á þann sem fyrir áfallinu verður, það getur haft áhrif á alla fjölskylduna.

 

Í fjölskyldum geta einstaklingarnir brugðist við áföllum á ólíkan hátt. Að skilja viðbrögð annarra og áhrif þeirra á samskiptin í fjölskyldunni getur hjálpað henni að takast á við erfiðleikana og komið í veg fyrir misskilning, sundrun í samskiptum og önnur vandamál. Neikvæður fjölskylduarfur eða áföll fyrri kynslóða getur haft áhrif á jafnvægi uppalenda sjálfra gagnvart því að mæta erfiðum stundum. Minningar og áföll sem myndast snemma, týnast oft í gegnum bælingu og tengslarof. Það sem situr eftir geta verið tilfinningaleg viðbrögð við sársaukafullu atviki, ómeðvituð bæling tilfinninga. Aukinn skilningur og þekking á áhrifum áfalla er mikilvægt og getur hjálpað okkur að vinna úr þeim og auðveldað okkur að bæta samskipti jafnt innan fjölskyldunnar sem utan.

Getur styrkt böndin

Áföll sem einstaklingar innan fjölskyldunnar verða fyrir hafa óhjákvæmilega áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi með einum eða öðrum hætti. Það er algengur misskilningur að það dugi að taka þann veika í fjölskyldunni og veita honum einstaklingsmeðferð en þetta er ekki svona einfalt. Oftast þarf líka að sinna þeim sem næst honum standa. Það þarf stundum að aðstoða fjölskyldur við að breyta vanvirkri hegðun með heilbrigðum valkostum og leggja áherslu á vönduð tengsl eða hegðunarmynstur. Foreldri sem á til dæmis við áfengisvanda að etja er ekki einangrað vandamál, það hefur áhrif á alla í fjölskyldunni, bæði maka og börn.

 

Í hnotskurn er markmið fjölskyldumeðferðar að aðstoða fjölskylduna við að vinna saman að því markmiði að hafa góð samskipti, auka traust innan fjölskyldunnar og draga úr spennu og streitu. Í aðalatriðum: minni átök, meiri lausnir. Fjölskyldumeðlimir sem upplifa sameiginlega erfiða atburði verða oft tengdari og meta hver annan meira eftir áfallið. Jafnvel þótt þú skiljir ekki nákvæmlega hvað aðrir í fjölskyldunni eru að upplifa eða að fara í gegnum þá er mikilvægt að vera meðvitaður um algeng viðbrögð og áhrif þeirra á fjölskyldulífið. Það getur hjálpað öllum að takast betur á við atburðina til lengri tíma litið.

Greinin Fjölskyldan í kjölfar áfalls birtist í Fréttablaðinu þann 11. maí 2018

✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥✥

 

Hafdís Þorsteinsdóttir fjölskyldufræðingur hefur víðtæka þekkingu á tengslamyndun og samskiptamynstrum í fjölskyldum. Hún heldur reglulega fyrirlestra um þau mál en vinnur einnig með ýmis viðfangsefni þessu tengt í hópavinnu. Hægt er að bóka einkaviðtöl og hafa samband við Hafdísi í gegnum tölvupóst á hafdis@leitumleida.is eða í síma: 857-7575.

bottom of page