top of page

Að sættast við æskuna

Margir hafa upplifað ýmislegt í æsku sem þeir hafa kannski þörf fyrir að sættast við þegar þeir eru uppkomnir. Mikilvægast í því ferli er að finna út hverju er hægt að breyta og hverju ekki og stundum verðum við að skilja að breytingarnar eru ekki í okkar höndum. Það er t.d. ekki okkar að breyta öðru fólki og auðvitað getur þú ekki breytt æsku þinni. En með því að tala við foreldra, systkini eða aðra einstaklinga sem voru mikilvægir í lífi þínu á þeim tíma, getur myndin af atburðum breyst á þann hátt að þú skiljir uppruna þinn og aðstæður betur og áhrifin sem þeir hafa haft á þig og fjölskylduna. Einnig getur verið nauðsynlegt að skoða og skilja hvernig upplifanir frá bernskuárunum geta haldið áfram að hafa áhrif á fullorðinsárin eins og á foreldrahlutverk, störf, nám og tilfinninga- eða vinasambönd. 

Oft erfitt ferli

Við fæðumst inn í ólíkar fjölskyldur þar sem margir ólíkir einstaklingar geta verið samankomnir. Stundum er talað um að fólk sé með misháan þröskuld eða mismikla seiglu. Þá er aðeins verið að benda á að fólk er ólíkt, misjafnlega viðkvæmt og í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem við mætum í lífinu. Þetta gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að systkini bregðast ólíkt við sömu aðstæðum, en þar hefur aldur og aldursröð systkina oft eitthvað að segja.

Þér finnst kannski ekkert spennandi eða árangursríkt að grafa í gegnum sársaukafullar minningar úr æskunni, sérstaklega ef þú telur að ekki fáist nein svör eða eitthvað sem gerir lífið auðveldara. Að fara í gegnum æsku sína hentar vissulega ekki öllum og þýðir ekki endilega að viðkomandi muni líða betur. En það getur reynst dýrmætt að skoða hvað það var í æskunni sem t.d. olli því að maður tók mögulega að deyfa sársauka með einhverjum aðferðum sem hentuðu ekki eða urðu til trafala síðar á ævinni. 

Þetta ferli getur verið erfitt og kannski er ekki hægt að finna ný sjónarmið eða svör. Foreldrar eru mögulega fallnir frá eða vilja ekki tala um liðna atburði. Þeir hafa hreinlega gleymt eða grafið atburðina, orðið leiðir eða sorgmæddir við að málið væri tekið upp eða jafnvel brugðist reiðir við vegna þess að þeim finnist þau verða fyrir óréttlátum ásökunum. Ferlið getur einnig reynt á fjölskylduna þar sem systkini haft stundum mjög ólíkar myndir og upplifanir frá æskuárum sínum og foreldrum og átök geta komið upp. 

     

Sátt til að festast ekki í fortíð

Það kemur fyrir að einstaklingar ákveða að fara í gegnum þetta ferli án þess að aðrir í fjölskyldunni taki þátt og er það vel gerlegt. Stundum veldur það breytingum á samskiptum innan fjölskyldunnar og í einstaka tilfellum rofi. Á það sérstaklega við ef það hefur verið mikið ofbeldi í fjölskyldunni, s.s. andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Stuðningur maka og vina er þá ómetanlegur en það getur reynst mjög árangursríkt að fá einnig aðstoð fagaðila við úrvinnslu slíkrar lífreynslu.

Að sættast við fortíðina veitir okkur meira svigrúm til að njóta þess lífs sem er í gangi núna. Ef sáttin á sér stað með breytingum, eða með þeim skilningi að sumu verður aldrei breytt, er auðveldara að vera til staðar sem foreldri, maki, vinur eða starfsmaður. Eða bara til staðar fyrir sjálfan sig og laus við að vera upptekin/nn af átökum, gremju eða ótta vegna minninga eða áhrifa æskuáranna. 

Það er mikilvægt að reyna að skilja hvernig bernskan hafði áhrif á okkur. Þannig getum við forðast að skapa neikvæðar ímyndir af okkur sjálfum og öðrum sem hefur byggst upp frá barnsaldri og hætt að endurtaka sama neikvæða mynstrið aftur og aftur. Það er ekki alltaf auðvelt að breyta en er vel þess virði. 

Sátt til að vera betri foreldri

Ef þú ert eða verður foreldri munt þú upplifa börn þín á ýmsum aldurskeiðum og munu þá kannski koma upp ýmsar minningar og margar tilfinningar um atburði sem þú hefur hugsanlega ekki hugsað um í langan tíma. Til þess að falla ekki í gömul hjólför þarftu í raun að tengjast eigin æsku og skilja hvernig hlutirnir voru og hvernig þér leið, svo að ekki sé hætta á að halda áfram mynstri sem ekki er gagnlegt.

Börn þurfa ekki fullkomna foreldra en þau þurfa foreldra sem taka ábyrgð á hlutverki sínu. Það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar er að læra af bernsku okkar, taka frá henni það sem var gott og breyta því sem var mögulega ekki svo uppbyggilegt. Brjóta þannig upp mynstrið sem hefur kannski verið lengi við lýði, jafnvel margar kynslóðir. 

Sátt - Aldrei of seint 

Að sætta sig við eitthvað þýðir ekki á nokkurn hátt að okkur verði að finnast það slæma eða erfiða sem hefur gerst í lagi, heldur snýst einfaldlega um að finna sátt með sjálfum sér þrátt fyrir það sem gerðist. Þannig getum við notað krafta okkar á uppbyggilegri hátt í það sem er að gerast í lífinu núna og lært að festast ekki í fortíðinni. Ekki dæma sjálfan sig eða aðra því flestir foreldrar eða uppalendur eru að gera sitt besta en hafa kannski ekki haft góðar fyrirmyndir.

 

Stundum þurfum við að fara inná við og skoða barnið innra með okkur sem hafði kannski ekki tækifæri til að þroskast á ýmsum sviðum. En það er aldrei of seint og þegar við erum fullorðin berum við ábyrgð á okkur sjálfum og höfum tækifæri til að endurala okkur upp og njóta allra þeirra kosta sem í okkur býr. 

bottom of page