top of page

Handleiðsla

Hvað er handleiðsla?

Handleiðsla er stuðningur við einstaklinga sem vilja styrkjast og þroskast í starfi. Tilgangurinn er að skapa nýjan skilning á starfinu og finna fleiri leiðir og úrræði í málum sem er verið að vinna með. Einnig er handleiðsla verkfæri til að gera starfsmanninn meðvitaðan um hvernig hans eigin skoðanir, viðhorf og líðan hafa áhrif á störf hans. Með reglubundinni faglegri handleiðslu er mögulega hægt að fyrirbyggja stöðnun, streitu eða kulnun í starfi. Þá getur handleiðsla einnig nýst vel ef leysa þarf ágreining eða samskiptavanda í fyrirtækjum.

 

Handleiðsla getur verið í formi:

Einstaklingshandleiðslu, hóphandleiðslu og jafningjahandleiðslu.

Einstaklingshandleiðsla

Starfsmaðurinn fer yfir þau vandamál og verkefni sem hann er að takast á við í vinnu sinni og getur fengið endurgjöf frá handleiðaranum. Áherslan er lögð á daglegu störf starfsmannsins og fagþróun hans og veitir handleiðarinn uppbyggilegar og viðráðanlegar leiðbeiningar miðað við hvar viðkomandi er staddur í sínu starfi.

Hóphandleiðsla 

Starfsmennirnir læra af verkefnum hvers og eins og er viðfangsefnið ákveðið og mótað af hópmeðlimum sjálfum. Utanaðkomandi fagaðili er oft fenginn til að stýra hóphandleiðslunni og getur reynst afar gagnlegt að hafa hlutlausan aðila þegar rýna þarf í verkefni og úrvinnslu þeirra. Markmiðið er það sama og í einstaklingshandleiðslu, þ.e. að ræða hvaða áhrif starfið hefur á einstaklingana sem sinna því og eru þeir hvattir til að segja frá þeim tilfinningum og hugsunum sem þeir eru að upplifa í starfinu.

Jafningjahandleiðsla

Allir taka þátt á jafnræðisgrundvelli. Enginn heldur utan um hópinn, starfsfólkið veitir hvert öðru ráð og deilir reynslu.

Í sumum tilvikum eru stjórnendur einnig handleiðarar fyrir starfsfólk sitt og hafa getu til að greina á milli hlutverks stjórnanda og handleiðara, en þetta gefur stjórnandanum meiri ábyrgð gagnvart starfsmönnum. Ef stjórnandi er einnig handleiðari getur reynst erfitt fyrir hann að nota ekki þær upplýsingar sem hann fær frá hinum handleidda í þágu fyrirtækisins og reynist mörgum því oft betur að leita til utanaðkomandi fagaðila. 

Margir eru undir miklu álagi, störfin krefjandi og úrræðin takmörkuð. Þá getur fagleg handleiðsla stutt við starfsmenn og dregið fram lausnamiðaða nálgun á erfiðum málum og verkefnum.

bottom of page